Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara.

12. mál
[18:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú lagt fram nokkrar fyrirspurnir hérna á þingi og það kemur mér sífellt á óvart hvernig tekið er við þeim. Við erum með ákveðinn tímafrest á skriflegum fyrirspurnum, 15 virka daga, þannig að maður veit kannski ekkert alltaf þegar maður spyr hvort hægt sé að svara fyrirspurninni innan þess tíma, enda koma reglulega svör frá ráðuneytunum þar sem þau segja: Við viljum meiri tímafrest, þrátt fyrir að ætlunin hafi kannski ekkert endilega verið að fá neitt það nákvæm svör að ráðuneytin þyrftu meiri tímafrest en 15 daga í það. En það á ekki að bíða þar til á síðustu stundu með að svara, eða jafnvel lengur, sem maður hefur líka heyrt um að sé raunin, að það sé einfaldlega ekkert unnið í fyrirspurnunum fyrr á síðustu stundu. Þannig að maður veltir fyrir sér varðandi nauðsyn þess að þingið fái upplýsingar sem það biður um, og þetta er svo merkilegt, eins og hv. þingmaður orðaði það hérna með umsagnirnar, að sá aðili sem við fáum helst upplýsingar frá er sá sem við eigum að hafa með eftirlit með. Þá veltir maður því stundum fyrir sér hvort t.d. skýrslubeiðnir eða jafnvel fyrirspurnir séu ekki eitthvað sem mætti jafnvel koma með umsagnir um, annars konar svör að einhverju leyti eða eitthvað því um líkt, því að kannski vita það ekki allir en það geta allir komið með umsagnir um öll þingmál, þ.e. þingsályktunartillögur og frumvörp, og af hverju ekki líka varðandi fyrirspurnir, skýrslubeiðnir og annað?