152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:50]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er nú svo heppinn að sá ráðherra sem ég vildi eiga orð við er staddur hérna í dag, en mér þykja þetta skrýtin vinnubrögð. Ég á tvær litlar afastelpur búsettar í Reykjavík sem veiktust af Covid og hafa verið frískar í marga marga daga. En vegna þess að foreldrar þeirra veiktust á eftir þeim þá verða þær að vera í sóttkví, missa af skóla og leikskóla. Loksins í gær var það upplýst að blessuð börnin gátu farið í göngutúr, þannig að það varð þá einhver bót á þessu. En við erum líka á sama tíma úti í samfélögunum, úti í sveitarfélögunum, að berjast við að halda skólastarfi gangandi. Yfirmenn skólanna vinna nótt sem nýtan dag við að skipuleggja skólastarfið í smitrakningu, færandi bekki fram og til baka og það fæst ekki umræða um þetta. Við erum hér í samtali við okkur sjálf daginn út og daginn inn. Ég átta mig ekki á því hvernig er hægt að bjóða fólki upp á svona lagað.