152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

jarðgöng í Súðavíkurhlíð.

[11:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hann benti á höfuðborgarsvæðið. Ég tek dæmi: Arnarnesvegur/Breiðholtsbraut. Þar áttu að vera mislæg gatnamót. Nú eru komin mislæg gatnamót með ljósum sem stórauka hættuna á því að þar verði slys og jafnvel banaslys. En á sama tíma og ráðherra kemur hér upp og segir að þetta sé ekki á dagskrá vegna þess að líkurnar séu minni á því að einhver farist í snjóflóðum í Súðavíkurhlíð, þá erum við að byggja upp borgarlínu sem á að kosta, ekki tugi milljarða heldur jafnvel hundruð milljarða. Ég segi: Ef við höfum peninga til að setja í þá vitleysu þá hljótum við að hafa fjármuni til þess að sjá til þess að fólk geti farið í og úr vinnu hvar sem er á landinu án þess að þurfa að leggja sjálft sig í lífshættu.