152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur mjög góðar spurningar og vangaveltur sem kannski hefur reynt meira á eftir því sem liðið hefur á faraldurinn. Ég held að það sé eðlilegt. Þegar mikil vá birtist okkur mjög snögglega og óvissan er algjör þá þekkjum við það mannlega í okkur að við köllum eftir leiðsögn og við erum öll til í að taka í kaðalinn, af því að óvissan er mjög mikil. Þá snýst þetta fyrst og síðast um að átta sig á stöðunni og við förum öll mun auðveldar í sömu átt. Í mínum huga hlýtur samstaða að þýða að þegar búið er að taka ákvörðun um eitthvað þá sameinumst við öll um að láta þá ákvörðun ganga upp. Það þýðir ekki að við höfum ekki misjafnar skoðanir eftir því sem upplýsingarnar og þekkingin verður meiri. Það er raunverulega það sem gerist þegar líður á faraldurinn og við förum að skilja betur, þekkja betur og læra betur inn á þær takmarkanir sem hefta okkur í daglegum athöfnum. Þær eru stjórnarskrárbundnar og mikilvægt að meta allar ákvarðanir út frá því.

Það má segja að við höfum á þessum tíma, eftir því sem við höfum náð betur utan um þetta verkefni, meiri þekking hefur komið fram og afbrigðið farið að mildast þegar á hefur liðið, farið úr algjörri vörn yfir í leið temprunar.

Hv. þingmaður spyr út í þessa málefnalegu mismunun, hvort ákvarðanir séu metnar út frá því. Ég segi já. Ég ætla að taka eitt dæmi. Við höfum blessunarlega góða bólusetningarstöðu og það hefur því ekki þróast í það að við höfum verið að taka ákvarðanir byggðar á bólusetningum eða aðgreiningu á grundvelli bólusetningar. Sóttvarnalæknir leggur til, til þess að mæta starfsemi sem er að skerðast víða, að létta á sóttkví á grundvelli vísindagagna sem segja að örvunarbólusetning, og það er staðfest með rannsóknum bæði frá Bretlandi og Danmörku, geri það að verkum að við smitumst síður og smitum síður. Á þeim grundvelli sóttvarna er þessi ákvörðun tekin. Og: Já, þetta var metið út frá þessari aðgreiningu á grundvelli bólusetningar og í stjórnarskrá er þetta af öðrum þáttum og það stenst jafnræðislög.