152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar ég settist hér á þing átti ég mér þann draum að við sem hér sitjum gætum unnið saman að því að bæta hag allra landsmanna. En ef þetta löggjafarþing þróast á sama hátt og síðustu þing þá munum við sjá stjórnarmeirihlutann koma seint með stór og mikil mál sem þeir óska eftir að keyra í gegn. Og við munum sjá stjórnarandstöðuna notað sitt eina vopn; að tala lengi og mikið, eins mikið og leyft er, til að hægja á þingstarfinu allt þar til kemur að því að þinglok nálgast. Þá fyrst setjast fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu niður og semja um framgang mála, mál sem mikil óánægja er með innan stjórnarandstöðunnar. Þeim verður frestað til næsta árs. Mál sem stjórnarandstaðan getur sætt sig við fá framgang og síðan fá flokkarnir í stjórnarandstöðunni leyfi til að velja eiott eða tvö frumvörp eða þingsályktunartillögur sem teknar eru á dagskrá sem bitlingar fyrir það að fara ekki í málþóf.

Svo spyr fólk sig af hverju þingið nær ekki að lagfæra öll þau yfirplástruðu kerfi sem við búum við. Svarið er því miður einfalt: Þingheimur er einfaldlega ekki nægilega þroskaður í samskiptum til þess að vinna saman að því að bæta það samfélag sem við búum í.

Já, ég á mér enn þann draum að við þingmenn sýnum þann þroska að bæta þau vinnubrögð sem hér tíðkast, að mál séu í raun rædd og að hlustað sé á gagnrýni og unnið í því að finna hinn gullna meðalveg sem allir geta sætt sig við. Já, ég trúi á þann draum að störfum Alþingis verði lyft upp á hærra plan og það er von mín að sem flestir þingmenn láti sig dreyma sama draum.