152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

viðmið skaðabótalaga.

[10:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir svörin en þau voru frekar rýr að því leyti að okkur ber að sjá til þess að fólk fái fullar bætur. Ég spyr mig: Hvers vegna í ósköpunum erum við að hjálpa og verja tryggingafélög sem vaða í peningum en ekki einstaklinga sem verða fyrir tjóni? Það er óþolandi að þeir sem verða fyrir líkamlegu tjóni standi eftir snauðir, jafnvel á örorku, og fái þar af leiðandi tjón sitt ekki að fullu bætt. Ég trúi ekki öðru en að líka verði séð til þess að tjónasjóðir tryggingafélaganna verði skoðaðir. Pétur Blöndal heitinn sagði að þetta væri fé án hirðis. Þetta þarf að endurskoða og þetta þarf að gera upp. Það þarf að fylgjast með þessu. Við vitum hvað varð um tjónasjóð Sjóvá sem hvarf í lúxusíbúð í Kína og endaði gjörsamlega á botninum á sundlauginni á Álftanesi. Ég vona að svo sé ekki. Ég spyr: Er búið að hleypa Fjármálaeftirlitinu út úr Seðlabankanum til að skoða tryggingafélögin?