152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

orkumál.

[10:59]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir fyrirspurnina. Þó svo að orkumálin séu í sjálfu sér ekki hjá mér skal ég glaður bregðast við þessari fyrirspurn enda tókum við talsverðan tíma í stjórnarmyndunarviðræðunum einmitt um þessi mál. Ég tek undir með þingmanninum að við höfum á liðnum árum gert of lítið, m.a. vegna þess að umræðan í samfélaginu hefur verið á röngum stað.

Hv. þingmaður segir að það sé umdeilt að það vanti orku. Ég held að það sé ekki lengur umdeilt. Það er 2% aukning sem hinn almenni markaður þarf á hverju einasta ári hið minnsta. Síðan erum við með ein 1.200 MW sem við vitum að við þurfum í orkuskipti á næstu 20 árum sirka. Við erum síðan með tvo hópa, annars vegar þá sem eru að kaupa orku af okkur í dag og vilja gjarnan fá meiri orku í mörgum tilvikum, vegna þess að græn orka er eftirsóknarverð til að framleiða vöru sem er þá gjaldeyristekjur fyrir okkur og atvinnuskapandi og er framleidd með loftslagsvænni hætti heldur en margt annað sem gerist í heiminum, og síðan er kannski annar hópurinn nýir viðskiptavinir, til að mynda þeir sem vilja framleiða hér rafeldsneyti í meira mæli til að hjálpa okkur í orkuskiptunum. Þannig að mín sýn og ríkisstjórnarinnar er sú að við þurfum að leysa úr læðingi þennan vanda, þ.e. við þurfum að geta haft skýran ramma um það hvernig við tökum ákvarðanir um frekari virkjanir, annars vegar innan rammaáætlunar og hins vegar að takast á við þessa vindmylluumræðu. Þar höfum við verið sammála um að skynsamlegast sé að horfa á að byggja fyrst upp þar sem flutningslínur og tengivirki eru. Það eru augljóslega þau svæði sem Landsvirkjun er með í dag, þ.e. Búrfellslundur og Blöndulundur, (Forseti hringir.) hugsanlega svæðið fyrir austan sem og á Þeistareykjum, (Forseti hringir.) vegna þess að það eru öll slík svæði þar undir. Það myndi, held ég, (Forseti hringir.) vera mjög gott skref til að byrja með.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á takmarkaðan ræðutíma í umræðum. )