152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

staða mála á Landspítala.

119. mál
[16:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mér fannst dálítið áhugavert að ráðherra fær fjórar spurningar en nær bara að svara þremur þrátt fyrir að vita alveg hversu langan tíma hann hefur til þess að svara spurningunum. Svörin eru: Það er verið að skoða eitthvað, þrátt fyrir að við vitum að á síðasta kjörtímabili var Hekluverkefnið sérstaklega sett í gang til að vinna á mönnunarvanda og álagi o.s.frv. og kostaði 500 milljónir á ári. Það var ekki bætt, það er í raun hluti af hallanum að reyna að laga mönnunarvandann sem við glímum við núna. Núna var samþykktur þessi „betri vinnutími“ en hann kom í staðinn fyrir raunaukningu þannig að það verður bara tilfærsla á álagi. Það var ekkert átak. Svo er til skýrsla frá 2006 sem segir okkur í rauninni hversu margt starfsfólk við þurfum að hafa árið 2020 ef allt á að ganga vel. Þrátt fyrir það þá vantaði 15% upp á að spár stæðust þannig að við erum í mjög öfugsnúnu ástandi. Það vantar að lágmarki 15% meira af starfsfólki (Forseti hringir.) á spítalann bara til þess að standast þær spár sem við höfum gert á árum áður. Það er lágmark.