152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á það að skynsamlegt væri að horfa til — hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég fer rangt með — 48 tíma reglunnar og efnislega lofa fólki þar með að setjast hér að, koma sér fyrir, hefja sitt líf, sækja sér vinnu og það allt saman. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hún sér fyrir sér útfærslu þessa fyrirkomulags og þá mögulega í samspili við aðrar sveigjanlegri leiðir. Eða sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta yrði bara reglan? Fólk kæmi hér inn og mál væru afgreidd á 48 tímum og síðan værir þú „on your own“, afsakið, forseti, og síðan væri fólk á eigin vegum í framhaldinu. Þessum sjónarmiðum hefur verið fleygt úr ýmsum áttum á fyrri stigum en mér leikur hugur á að vita hvernig hv. þingmaður sér þetta fyrir sér, hvort allir féllu t.d. undir þessa 48 tíma nálgun og fólk væri þar með upp á sjálft sig komið eftir að leyfi fengist hér. Það væri áhugavert að heyra hver sýn hv. þingmanns er á akkúrat þetta atriði sem hún kom inn á hér áðan.