152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ofan í árlegar haustlægðir bætast við vandamál og áhyggjur varðandi þróun mála í Úkraínu. Nú þegar Rússar hafa brotið alþjóðalög er mjög mikilvægt að við séum skýr um að það verði ekki liðið. Flestir leiðtogar vestrænna ríkja hafa fordæmt þetta harðlega og þó að hæstv. utanríkisráðherra hafi vissulega sagt að við munum fylgja efnahagsaðgerðum nágrannaþjóða okkar skilar hæstv. forsætisráðherra algerlega auðu í málinu. Við verðum einfaldlega að gera ráð fyrir meiri skörungsskap af þeim bænum. Ófriðurinn austur frá mun hafa áhrif á alla okkar heimsmynd og hann mun hafa áhrif á öryggis- og varnarmál um álfuna okkar. Hann mun líka hafa áhrif á pólitíkina hér innan lands. Það er líklegt að neysluvörur hækki og olíuverð hækki enn meira, sem kyndir undir verðbólgu sem hefur áhrif á efnahagsmál hér og er sérstaklega alvarlegt þar sem ríkisstjórnin er í grundvallarafstöðu ósammála um hvernig skuli bregðast við núverandi ástandi. Atburðarásin mun líka kalla á aukinn vígbúnað hingað og þangað um heiminn og örugglega verður farið fram á aðsetur, varanlegt jafnvel, varnarliðs hér á Íslandi. Þá geta menn rétt ímyndað sér hvort hitni í kolunum á ríkisstjórnarheimilinu. En aðalatriðið er auðvitað það að við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir meiri átök. Það er nauðsynlegt að bandamenn okkar og við séum miklu skýrari gagnvart Rússlandi þegar kemur að því hvaða meðulum verður beitt. Það gildir ekki síður um Ísland og ég kalla eftir skýrari afstöðu forsætisráðherra.