Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þetta frumvarp þá er með því verið að setja sandkola í gjafakvótakerfið sem gerir þeim sem fá úthlutað veiðiréttindum kleift að selja hann og leigja þessa auðlind þjóðarinnar. Varðandi grásleppuna segi ég bara: Hver vill ekki eignast grásleppukvóta til að eiga, til sölu, leigu og annars slíks? Varðandi sandkolann er spurning til hæstv. ráðherra: Hvernig dettur nokkrum heilvita manni í hug að setja tegund í aflamark sem er fyrst og fremst meðafli og aukaafli? Það er eiginlega enginn á sandkolaveiðum. Þetta er meðafli með öðrum tegundum. Það sem þetta frumvarp mun gera, eini hvatinn sem það mun leiða til, er að það mun auka brottkast. Þeir sem fá sandkola sem meðafla munu henda honum frá borði strax ef þeir hafa ekki kvóta. Þeir þurfa annaðhvort að leigja hann eða eiga fyrir. Það er það eina sem mun gerast.

Það er annað sem vil ég benda á varðandi rökin fyrir frumvarpinu. Það er vitnað til Hafrannsóknastofnunar og ég mun koma að því seinna. Hafrannsóknastofnun hefur ekki getað metið stöðu stofns sandkola í mörg ár. Það er ekki hægt. Hver eru rök Hafrannsóknastofnunar — þetta er spurning númer tvö —fyrir því að setja þetta í kvóta? Það eru engin vísindaleg rök og það eru engin rök til að takmarka atvinnufrelsi landsmanna til að stunda sandkolaveiðar. Þessi tegund á klárlega að vera fyrir utan kvóta og ekki halda áfram með Verbúðina 2, 3 og 4. Það er smátt og smátt verið að setja tegundir í kvóta. Það voru sex tegundir í kvóta 1998 og nú eru þær yfir 30.