Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[15:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlýða á ræður hér í dag og þó að þetta sé ekki risamál þá er þetta samt ákveðin tegund af fiskveiðistjórn og við verðum þá að hafa ákveðin grundvallaratriði í lagi. Ég held að það sé alveg ljóst, m.a. miðað við hv. síðasta ræðumann, að nefndin þurfi að fara mjög vel yfir þá þætti sem hann hefur gert málefnalegar athugasemdir við. Það er þannig að þegar ákveðin eftirspurn og ásókn er í stofna eins og bæði sandkola og sæbjúgu og þeir eru að hluta til á einhverri niðurleið, þá kemur þessi þrýstingur um að setja á kvóta. Það verður löggjafinn að hugsa um hverju sinni og þá verðum við að hafa vísindaleg rök með okkur. Við verðum að átta okkur á því að hvaða þýðingu þetta hefur fyrir í fyrsta lagi stofnana á grunni vísinda. Við þurfum að hafa ákveðnar hugmyndir um hvaða þýðingu þetta hefur fyrir greinina, sem er misfjölmenn, fyrir bæina, sjávarþorpin víða um land og síðast en ekki síst hvaða grundvallarprinsipp eru undirliggjandi þegar kemur að rétti þjóðarinnar.

Við megum ekki gleyma því að fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar og þó að við höfum upplifað á síðustu dögum mikla hysteríu og særindi hvort sem er af hálfu þingmanna, bæði núverandi og fyrrverandi þingmanna og ráðherra Vinstri grænna eða af hálfu Sjálfstæðismanna sem tala um allar tillögur til breytinga á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem þjóðnýtingu. Það segir náttúrlega út af fyrir sig mjög mikið um það hvernig þeir líta á veiðiréttinn. Þeir líta á veiðiréttinn sem einkarétt útgerðanna. Ég vil mótmæla því en umræðan síðustu daga hefur verið mjög upplýsandi. Í þessu máli þurfum við að hafa varann á þó að þetta sé ekki risamál. Það eru þessi grundvallarprinsipp sem við þurfum að hugsa um.

Eftir fjögur ár af þessari stjórn og við komum að stýringu á fiskstofnunum þá er ótrúlega grátlegt að við höfum ekki einu sinni getað komið okkur upp almennilegu auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Af hverju? Er það forystuleysi í ríkisstjórninni? Ég ætla ekki að segja að svo hafi verið því ég tel að forsætisráðherra hafi að mörgu leyti átt frumkvæði að prýðisvinnu í upphafi vinnunnar á síðasta kjörtímabili þar sem voru kallaðir til formenn allra stjórnmálaflokkanna. Við komum okkur saman um átta ára plan um að breyta ákveðnum þáttum stjórnarskrárinnar. Fyrsta kjörtímabilið eða fyrra kjörtímabilið ætluðum við m.a. að gera auðlindaákvæði og umhverfisákvæði. Við ætluðum líka að tala um framsal valds til erlendra stofnana. Það voru fleiri þættir sem við ætluðum að taka á síðasta kjörtímabili. Á þessu kjörtímabili, sem nú er að hefjast, ætluðum við að fara í það m.a. að skoða jafnt vægi atkvæða, einn maður eitt atkvæði. Hluti af óréttlætinu í sjávarútvegi og almennt í íslensku samfélagi á rætur sínar að rekja til þess að við erum ekki með jafnt atkvæðavægi.

Við ætluðum að skoða fleiri þætti og núna erum við komin inn í annað kjörtímabilið. Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur: Ég tel samkomulag frá síðasta kjörtímabili vera enn til staðar þegar kemur að breytingu á stjórnarskránni. Fyrst við náðum ekki að klára þetta á síðasta kjörtímabili þá tökum við það sem við náðum að vinna, þessi fjögur atriði eins og auðlindaákvæðið, íslenskuákvæðið, umhverfisákvæðið og forsetakaflann og getum unnið það núna ásamt því að fara í þau ákvæði sem ég nefndi hér áðan.

Er það forystuleysi, spurði ég áðan, af hálfu Vinstri grænna og forsætisráðherra í stjórnarskrármálinu? Nei, eins og ég segi, ekki endilega. Ég studdi aðferðafræði hæstv. forsætisráðherra í þessu en þegar til stykkisins kom var ekki hægt að gera málamiðlun við okkur t.d. í Viðreisn sem sögðum: Gott og vel. Við ætlum að fella okkur við auðlindaákvæðið sem forsætisráðherra setur fram fyrir utan forsetakaflann sem við samþykktum, jafnt og umhverfisákvæðið og íslenskuákvæðið. Við samþykktum þetta nema við sögðum eitt ákveðið orð, það var tímabundnir samningar, ekki ótímabundnir heldur tímabundnir samningar.

Það merkilega er að þegar maður skoðar bakgrunninn þá sjáum við að í þeirri sáttanefnd sem ég setti á laggirnar sem sjávarútvegsráðherra í maí 2017 og núverandi sjávarútvegsráðherra sat í og aðrir flokkar líka, þá kom alveg skýrt fram að allir flokkar voru reiðubúnir að máta inn tímabundna samninga með einum eða öðrum hætti nema einn flokkur. Það var Sjálfstæðisflokkurinn. Framsóknarflokkurinn kom alveg skýr til leiks. Það var mikið fagnaðarefni. Hann tók frumvarp frá núverandi formanni Framsóknarflokksins og þáverandi sjávarútvegsráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, um tímabundna samninga sem fólu í sér samninga til 18–23 ára. Það var alveg skýrt. En í staðinn fyrir að forsætisráðherra léti reyna á það að fá þessi mál til umræðu í þinginu, að við næðum að afgreiða þessi mál, auðlindaákvæði með tímabundnum samningum, koma til móts við í rauninni alla aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn þá var ákveðið að salta bara allt og ekkert var afgreitt.

Þess vegna er það sárgrætilegt að núna, þó að þetta mál sé ekki stóra málið í fiskveiðistjórninni, skulum við samt ekki hafa haft manndóm til þess að byggja grunninn betur þegar við erum að ræða svona mál, að það sé ekki kominn fram kjarni í gegnum stjórnarskrána til þess að verja réttindi þjóðar, hvernig sem við á endanum samþykkjum þetta mál út úr þinginu, að við séum einhvers staðar búin að ná haldfestu fyrir þjóðina. Það hefur okkur ekki tekist í fjögur ár. Þess vegna finnst mér þessi umræða núna í kjölfarið á þessum dásamlegu þáttum Verbúðin, en um leið og þeir eru dásamlegir eru þeir líka að einhverju leyti nöturlegir, sýna okkur á ákveðinn hátt hversu hrópandi óréttlætið getur verið í tengslum við sjávarútveg.

Ég hef margoft sagt það að ég er fylgjandi kvótakerfinu. Ég tel að það hafi verið eina rétta skrefið á sínum tíma eftir svörtu skýrsluna frá Hafró 1978. Við vorum búin að upplifa hrunið á síldarstofninum einhverju áður og það varð að grípa til aðgerða og þurfti ákveðinn pólitískan kjark til þess. Menn sáu ekki allt fyrir. Þannig er það. Allir flokkar hafa komið að því með einum eða öðrum hætti að byggja upp kvótakerfið og ég skynja að það eru örlítil sárindi að minna Vinstri græna og vinstri flokkana á að þeir hafi átt í þátt í framsalinu, örlítil beiskja, eitthvað sem ekki má nefna, svona eins og að segja Voldemort í Harry Potter-myndunum. En þannig var það og ég held að menn eigi ekkert að skammast sín fyrir það að samþykkja framsalið. Það er líka rétt sem komið hefur fram til að mynda hjá Daða Má Kristóferssyni, varaformanni Viðreisnar, að á sínum tíma þegar þetta var sett á laggirnar var útgerðin ekki í standi til þess að greiða mjög mikið. Það var hallarekstur á útgerðinni, sjávarútvegurinn átti undir högg að sækja. Þess vegna var farið í að byggja upp kerfi til þess að vernda stofnana, til þess að búa til umhverfi sem gerði það hagkvæmt og arðbært fyrir okkur að starfrækja hér sjávarútveg og sem á endanum átti líka taka tillit til réttinda þjóðarinnar.

Við erum búin að gera fyrstu tvö atriðin. Þjóðin hefur verið skilin eftir í síðasta atriðinu. Það var ekki fyrr en eftir framsalið og eftir þá hagkvæmni sem fer af stað í gegnum framsalið og oft og tíðum mjög erfiða tíma, bæði samruna og það að sjávarútvegsfyrirtæki voru að leggja upp laupana og færa sig á milli, yfir í það að þau gátu síðan farið að reka sig og við gátum séð fram á myndarlegri og betri tíma í sjávarútvegi. Það var ekki fyrr en á tíunda áratugnum sem við sáum fram á að sjávarútvegurinn gat farið að greiða auðlindagjöld og þá var m.a. mikil umræða um það í samfélaginu hvort útvegurinn ætti ekkert að borga fyrir einkarétt af auðlindinni. Svo leyfa menn sér að segja að íslenskur sjávarútvegur sé ekki ríkisrekinn eða ríkisstyrktur, ekki ríkisrekinn en að hann sé ekki ríkisstyrktur þegar þetta er sú atvinnugrein sem fær aðgang að, einkarétt á, fiskveiðiauðlind, auðlind þjóðar, á slikk. Er það ekki niðurgreiðsla hjá ríkinu í formi þessa í rauninni ótakmarkaða aðgangs útgerðarinnar að auðlindinni sem kostar skít og kanel? Ekki koma hingað upp og reyna að segja mér að við höfum ekki að hluta til ríkisstyrkt sjávarútveginn með þessum hætti.

Auðlindanefndin 2000 kom fram með sínar tillögur alveg skýrar. Það var lengstum samhljómur og það var farsæl skipun á þeirri auðlindanefnd, þvert yfir flokka. Þar voru fulltrúar almennings í gegnum flokkanna en ekki bara handpikkaðir af ráðherra hverju sinni og LÍÚ var þarna líka og stóð með þessu samkomulagi í nokkur ár en voru síðan fljótir að hlaupa frá samkomulaginu þegar átti að fara að standa við það, þegar átti að fara að gera tímabundna samninga, þegar átti að fara að setja á almennileg auðlindagjöld sem þeir og þau eiga að borga fyrir þennan einkarétt á veiðirétti í sameiginlegri auðlind.

Kerfið já, er hægt að bæta það? Já, það er hægt að bæta það. Það er hægt að laga það. Það þarf að taka tillit til minna kerfisins. Við þurfum að skoða breytingar bæði á byggðakvótanum og almenna byggðakvótanum sérstaklega. Við þurfum að skoða fyrirkomulag á strandveiðunum, bæði með tilliti til lífríkis, sjávarþorpa og greinarinnar sem slíks. Síðan er það stóra kerfið og það liggja fyrir ítrekaðar tillögur frá okkur í Viðreisn og fleiri flokkum um það hvernig hægt er að ná því sem þjóðin er að kalla eftir, hrópa á, en meistarar lobbýismans koma alltaf í veg fyrir að það verði hreyft almennilega við hlutum, hvort sem það er í gegnum SFS eða LÍÚ eða að hluta til innan þeirra sem skipa stjórnarflokkana í dag. Það má engu breyta.

Ég fagna því sem kom fram hjá einum hv. þm. Sjálfstæðisflokksins að það megi taka einhver hænuskref. Fínt ef menn vilja taka hænuskref en það verður ekki til að sleppa þeim frá því að þjóðin á og verður að fá sinn rétt sem er sanngjarnt eðlilegt gjald fyrir eign hennar á fiskveiðiauðlindinni í kringum landið. Hvernig gerum við það? Við erum búin að fá þá reynslu að það sé togað í spotta og búið til eitthvert kerfi sem öllum er óskiljanlegt og á endanum umbun fyrir þá í sjávarútvegi sem eru hvað mestir skussar í rekstri. Á endanum treystum við einfaldlega markaðnum til þess að ákveða hvað er rétt og eðlilegt verð fyrir þennan aðgang að auðlindinni.

Virðulegur forseti. Ég sé að ég hef ekki mikið meiri tíma í þessari ræðu. Það er margt eftir ósagt en þetta frumvarp sem við erum með er ekki stórt en við þurfum að gæta að þessum prinsippum. Við munum spyrja: Hvað með rétt þjóðarinnar í þessu á endanum, því við sjáum ekki allt fyrir? Við munum spyrja og við munum koma með tillögu, ef þetta kemur svona inn, um tímabundna samninga. Við munum láta reyna á raunverulegan vilja stjórnarflokkanna og stjórnarþingmanna sem segjast oft í orði vilja sjá lagfæringar á kerfinu en í hvert einasta skipti öll síðastliðin fjögur ár (Forseti hringir.) hafa stjórnarflokkarnir komið í veg fyrir að við fáum að afgreiða tillögur okkar eða einfaldlega ýtt á rauða takkann. Þetta þarf að hafa í huga og þetta þarf að afhjúpa.