Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[17:23]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. varaformanni fjárlaganefndar fyrir þessa framsögu. Mig langaði aðeins til að varpa upp þeirri spurningu strax í upphafi hvernig hv. varaformaður fjárlaganefndar sér stjórnarsáttmálann endurspeglast í þeirri fjármálastefnu sem hér er verið að fara yfir. Þessi vangavelta kemur ekki aðeins frá mér heldur einnig frá fjármálaráði. Komið er inn á þetta að hluta til í umsögn meiri hlutans, en þar er varpað upp þeirri athugasemd sem kemur frá fjármálaráði að kannski fari hljóð og mynd ekki alveg saman, a.m.k. liggur fyrir að ákveðin kerfisbundin vanfjármögnun er til staðar í kerfinu, annaðhvort þurfi að styrkja tekjustofna eða draga úr útgjöldum. Að mínu mati er mjög skýr pólitík í ríkisfjármálunum í stefnunni. Tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu undir lok tímabils þessarar stefnu hafa ekki verið lægri á þessari öld. Gott og vel, það er ákveðin pólitík sem verið er að reka, en það er bara mjög erfitt að reka þá velferðarpólitík sem boðuð er í sáttmála ríkisstjórnarinnar undir þessum ramma. Það er a.m.k. mín upplifun og virðist að hluta til vera upplifun fjármálaráðs líka. Þess vegna langar mig til að beina þeirri spurningu til hv. varaformanns hvort honum hugnist af þessu tvennu annaðhvort að falla fá frá loforðum í stjórnarsáttmála eða þá að styrkja tekjustoðir ríkissjóðs umfram það sem boðað er í þessari fjármálastefnu.