Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[17:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og við munum þá gagnrýndu Samtök atvinnulífsins fjármálastefnuna mjög harkalega og líka fjárlögin fyrir að færa skuldavandann yfir á næstu ríkisstjórn og kynda í rauninni þannig undir verðbólguna. Og þegar ég er búin að hlusta á ræðu hv. þingmanns þá finnst mér þetta vera ákveðinn blekkingarleikur. Árið 2019, eins og hefur komið fram, þá var ríkissjóður orðinn ósjálfbær og þó að við komum okkur þangað þá eigum við samt eftir að útskýra fyrir fólki hvernig við ætlum að gera hann sjálfbæran. Núna þegar verðbólgan er að vaxa, m.a. vegna þess að ríkissjóður leggur ekki sitt af mörkum til þess að berjast gegn verðbólgu, þá aukast eðlilega kröfur frá launþegum um að ríkissjóður bæti þeim skaðann sem verða fyrir mestu tjóni vegna verðbólgunnar. Þetta á ekki síst við vegna óðaverðbólgu á húsnæðismarkaði. Er þingmaðurinn tilbúinn til þess að auka útgjöld ríkissjóðs enn frekar til að koma til móts við nákvæmlega þessar kröfur verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningum? Og fari svo að það verði niðurstaðan, hvernig á þá að gera þetta? (Forseti hringir.) Á að auka hallann eða afla tekna með hagræðingu eða nýjum sköttum? Og ég vil einnig spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann: Mun hann gera þá kröfu vegna aðkomu ríkissjóðs að kjarasamningarnir sjálfir (Forseti hringir.) verði í samræmi við verðbólgumarkmið ríkisstjórnar?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir ræðumenn á að virða ræðutíma. )