Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[19:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta framsögu 3. minni hluta um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2022–2006. Hv. þingmaður byrjaði á að spyrja: Hvað er fjármálastefna? Hann segir í upphafi að þetta sé í raun bara ein tafla með fullt af tölum um heil0darafkomu, óvissubil og skuldir o.s.frv. og að þarna sé stuðst við nútíma-Nostradamus sem búi á Hagstofunni. Ég vissi ekki að hann byggi þar, en allt í lagi.

Í lögum um opinber fjármál, um fjármálastefnu, segir að fjármálastefnu skuli m.a. skipt í eftirfarandi þætti: stefnu um umfang, afkomu og þróun eigna. Sér hv. þingmaður eitthvað um þróun eigna í fjármálastefnunni? Og ef svo er, hvar er það? Mér finnst þetta ekki vera samkvæmt lögunum hvað þetta varðar. Ég fjallaði um það sjálfur varðandi skattastefnuna og las upp úr greinargerð um tekjuhlutann, en ég sé ágætisgreiningu hjá hv. þingmanni um tekjustefnuna og stefnumarkmið stjórnvalda í tekjumálum. Hann segir: Tekjustefna ríkisstjórnarinnar fjallar um fimm atriði. Þar kemur m.a. fram að það er framtíðarvandamál í fyrsta hlutanum, í öðrum hlutanum er það samdráttur í tekjum ríkissjóðs af samgöngum, í þriðja hluta er talað um að draga úr undanskotum og styrkja með því tekjustofna hins opinbera. Svo eru það loftslagsmálin og þá öldrun þjóðarinnar.

Þetta eru þessi fimm atriði. Svo minntist hv. þingmaður aðeins í lokin á auðlindanýtingu og við vitum öll hvert veiðileyfagjaldið er, en ekki er minnst á Íslandsbanka. Svo er líka minnst á gjaldastefnuna. En las hv. þingmaður þessi fimm atriði beint upp? Ég sá þau ekki talin upp í fjármálastefnunni. Hvernig lítur hv. þingmaður á tekjustefnuna? Gæti hann súmmerað upp þessi fimm atriði? Ég sé þau atriði ekki sjálfur.