Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:10]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við erum hér með plagg sem felur í sér að árlegur raunvöxtur útgjalda verður mjög lítill í sögulegu samhengi, 0,7%. Opinbert fjárfestingarstig verður líka óvenjulágt. Fjármálaráð bendir á þetta. Þetta er ekki eitthvað sem ég er að finna upp hjá mér. Það er dapurlegt ef hv. þingmanni finnst þetta ósmekklegt, en svona er þetta bara í þessari ömurlegu fjármálastefnu. Samkvæmt fjármálaáætluninni, sem ríkisstjórnin lagði fram í fyrra, á hlutfall ríkisútgjalda af vergri landsframleiðslu að vera orðið lægra í lok þessa kjörtímabils en sést hefur á þessari öld. Hið sama gildir um umfang hins opinbera í heild. Það er ekki bara verið að bakka eitthvað aðeins með útgjaldaaukningu síðustu ára, það er verið að taka pólitíska ákvörðun um að ríkið og hið opinbera dragi saman seglin, haldi að sér höndum, komi minna að því að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag. Það er ekkert vinstri við þetta. (Forseti hringir.) Þetta er hægri stefna og þess vegna spyr ég aftur: (Forseti hringir.) Hvers vegna finnst fólkinu sem var kosið á þing fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð svona ofboðslega (Forseti hringir.) mikilvægt að draga úr umfangi hins opinbera og ríkisins í hagkerfinu?