Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[21:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður ræðir hér tekjugrunn ríkisins og velta því fyrir sér hvort ég vilji hækka skatta á þá sem mest hafa, ef ég skildi spurninguna rétt. Hv. þingmanni ætti að vera ljóst að stefna þess stjórnmálaflokks sem ég starfa fyrir er ekki í þá áttina, nei. Aftur á móti höfum við lagt mikið upp úr því, og ég held að það sé kannski grunnur að einhverju sem ég náði ekki að svara hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni áðan, að þetta snúist um skattstofninn, hver skattstofninn er. Það eru tækifærin okkar þegar við segjum hér að við ætlum að vaxa út úr þessu, það er að skattstofninn okkar stækki, að atvinnulífið og efnahagslífið stækki allt saman.

Eitt af því sem ég nefndi í andsvari áðan er einmitt þessi fjórða stoð okkar, nýsköpun og tæknigeiri. Við erum allt í einu raunverulega komin með nýja stoð inn í íslenskt atvinnulíf, ný fyrirtæki, nýjar atvinnugreinar. Ekki aðeins greiða fyrirtækin sjálf háa skatta heldur er það líka þannig að starfsfólkið sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum er sem betur fer á býsna góðum launum og greiðir þar af leiðandi hærri skatta. Hv. þingmanni ætti að vera það ljóst en bara ágætt að ég ítreki það. Mín sýn er fyrst og fremst sú að stjórnvöld eigi að byggja hér upp ákveðinn grunn, svo einstaklingar og fyrirtæki geti blómstrað og greitt vel til samfélagsins þar sem við viljum bjóða upp á góða þjónustu.