152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

vextir og húsnæðisliður í vísitölunni.

[10:46]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Jú, eiginfjárstaða heimilanna hefur batnað á pappír. Það er út af því að eignir hafa hækkað í verði, ekki af því að tekjur heimilanna eða skuldir þeirra við fjármálafyrirtækin hafi lækkað. Það er bara eitthvað sem skiptir ekki máli fyrir framfærslu heimilanna í hverjum einasta mánuði. Fólk þarf eftir sem áður að lifa og ef fólk ákveður að selja eignina sína þá verður það allt dýrara. Ég vil líka taka fram að meðaltöl segja ekkert alla söguna. Við erum að tala um leigu og verðtryggingu og þeir sem eru verst staddir eru þar. Dæmi eru um að leiga hafi hækkað um 30.000 kr. og það var fyrir tveimur mánuðum sem ég fékk þær upplýsingar þannig að hún hefur hækkað enn meira og á væntanlega enn eftir að hækka. Þessir peningar eru ekki til á þessum heimilum, þeir eru bara ekki til. Og hvernig ætlar fjármálaráðherra að bæta þetta upp í kjaraviðræðum í haust þegar það þarf a.m.k. 50.000 kr. hækkun til að mæta þessu?