Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

218. mál
[16:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Já, það er mikilvægt að miklar rannsóknir fari fram þegar mikil fjárfesting og breyting er gerð. Hér var talað um veður og náttúruvá. En svo eru náttúrlega umhverfismatið og skipulagsmálin eftir þannig að við erum að tala um 50 ár. Það er búið að taka 20 ár að fá að leggja eina straumlínu þarna. En mig langar þá að snúa þessu við og segja að ábatinn af þessu — það hefur margt breyst frá því að þessi nefnd fór af stað. Nú erum við með alþjóðaflugvöll í Keflavík. Þar er ríkið búið að gera rammaskipulag á sínu svæði, Kadeco-svæðinu, við Ásbrú, upp á 40.000 manna byggð. Þá þurfum við kannski ekki að fá allt Vatnsmýrarsvæðið undir íbúabyggð heldur getum við bara byggt á landi ríkisins á Ásbrú þar sem stærstu vinnustaðir landsins eru, Isavia, Icelandair, Bláa lónið o.fl., í næsta nágrenni. Ég held að við ættum að fara að skoða þessi mál um innanlandsflug og alþjóðaflug út frá réttum forsendum miðað við veruleikann í dag.