152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[14:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem við vorum að ræða í fyrra andsvari þá er þetta frumvarp vissulega ekki um vinnuvernd en ég hvet nefndina til að skoða það ítarlega þó svo að ég hafi haldið því fram að hér væri fullkomið jafnræði á milli ólíkra forma reksturs. Varðandi atriðið um orkuskipti og loftslagsmarkmið, sem er mjög mikilvægt og við höfum talsvert fjallað um, þá væri auðvitað hægt að hugsa sér að ekki væru gefin út nein leyfi nema viðkomandi væri með nýorkubíl. En við töldum að það væri nú fulllangt gengið að gera það um leið og við erum að skipta um kerfi og bendum á í greinargerð með frumvarpinu að í dag erum við með ívilnanir til að hjálpa fólki að kaupa bíla sem eru með nýorku en ekki hefðbundna dísil- eða bensínbíla, sem og aðrar skattbreytingar sem við erum með í kerfinu, niðurfellingar á vaski og slíku. Þannig að við hvetjum menn til að skoða það. Það má líka hugsa sér að einhver tiltekinn fjöldi útgefinna leyfa yrði háður þessu og nefndin getur að sjálfsögðu sett það inn ef hún telur að sátt yrði um slíkt.