152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[15:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek að sjálfsögðu undir það með honum að hægt er að bæta þjónustuna með ýmsum hætti og þar á meðal með öppum eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, þ.e. að þú hafir forrit í símanum sem getur sagt til um það hvar leigubíllinn er staddur o.s.frv. Varðandi sérleyfisferðir, t.d. á milli Keflavíkur og Reykjavíkur, getur þú séð hvar farþegaflutningabíllinn er staðsettur hverju sinni og það er mjög þægilegt þegar fólk er að bíða eftir honum. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ýmsar leiðir eru til að bæta þessa hluti og ég held að leigubifreiðastjórar og félög þeirra séu mjög áfjáð um að gera það. En af því að hv. þingmaður nefndi þessar farveitur þá stöndum við frammi fyrir öðru máli þegar að því kemur að innleiða það. Hvað verður þá um stöðvaskylduna og gagnasöfnun og annað slíkt? Það er hætta á svartri atvinnustarfsemi þar o.s.frv. og virðisaukinn fer í raun allur úr landi. Það er ýmislegt í þessu sem þarf að skoða. Við viljum að sjálfsögðu líka þjónusta þá vel sem sækja þessa þjónustu mikið, eins og hv. þm. Orri Páll Jóhannsson nefndi í ræðu sinni. Það er ákveðinn hópur fólks, eldra fólks, fatlaðra, sem nýtir þessa þjónustu mjög mikið. Þá er mjög mikilvægt að viðkomandi, sá sem sinnir akstrinum, hafi hreint sakavottorð, hann sé þjónustulundaður, hann tali íslensku o.s.frv. Það eru ýmsar leiðir til að bæta þessa þjónustu, ég tek undir það með hv. þingmanni.