152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

hegningarlög.

389. mál
[17:19]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og tek heils hugar undir frumvarpið og markmið þess, að verið sé að bregðast við breyttum viðhorfum í samfélaginu gagnvart þeim brotum og þeirri háttsemi sem fjallað er um. Mig langar einnig að vekja athygli á því að verið er að fylgja réttarþróun annars staðar á Norðurlöndunum sem er mjög mikilvægt, það eru lönd sem við berum okkur mikið saman við. Einnig hefur sérstaklega verið litið til nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis og er farið að tilmælum hennar sem rétt er að gera. Það kom fram í umræðu hér rétt áðan að mikilvægt er að þyngja refsingar úr tveimur árum í sex ár varðandi barnaníð og uppbygging 3. gr. er endurskoðuð sem ég tel til mikilla bóta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem markmið frumvarpsins er að bregðast við breyttum samfélagsviðhorfum varðandi þau brot sem hér er fjallað um og þá réttarþróun sem er annars staðar á Norðurlöndunum: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að fjármunir verði settir í þjálfun lögreglumanna sem munu rannsaka slík brot og líka eftir atvikum ákærenda til að geta brugðist við þessum samfélagslegu viðhorfum? Það er gott og blessað að hafa lögin rétt en það er líka mjög mikilvægt að rannsóknir á þessum brotum endurspegli þau breyttu viðhorf sem eru í samfélaginu og alvarleika þessara brota. Mun ráðherra beita sér fyrir því að settir verði fjármunir í þjálfun lögreglumanna sem munu ná til þessara brota og eftir atvikum einnig til ákærenda?