152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu og fyrir að vekja athygli hæstv. forseta á þessu, sem virðist hafa tekið vel í þessa beiðni og það er vel. Ég vil hins vegar árétta að mögulega er líka tilefni til þess að auka tækifæri stjórnarandstöðuþingmanna til að fara í óundirbúnar fyrirspurnir. Þessar reglur voru settar upp þegar það voru talsvert færri flokkar á þingi en núna. Og raunar mætti alveg íhuga að fjölga þeim fyrirspurnum sem mega koma fyrir ráðherra vegna þess að það er vissulega að mörgu að spyrja og að mörgu að huga. Þessi dagskrárliður er með mikilvægustu dagskrárliðum hér í þessum þingsal þar sem stjórnarandstaðan sérstaklega, og jú, stundum stjórnarliðar, fá tækifæri til að veita framkvæmdarvaldinu virkt aðhald í störfum sínum. Þar af leiðandi beini ég því líka til forseta að íhuga hvort ekki megi auka við óundirbúnar fyrirspurnir og tryggja betri mönnun en þrjá ráðherra af 12.