152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

svör við fyrirspurnum.

[11:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Varðandi svör ráðherra við skriflegum fyrirspurnum þá er kannski rétt að rifja upp að árið 2011 var frestur til að skila svörum lengdur úr tíu dögum upp í 15. Á síðasta ári var reynt að lengja hann enn, úr 15 dögum upp í 25. Bar þá svo við að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd öll sammæltist um að snúa þeirri þróun við og segja: Nei, við höldum okkur við 15 daga. Nefndin bætti um betur og sagði að það væri rétt að kalla eftir ítarlegri rökstuðningi fyrir því ef ráðherra tekst ekki að svara fyrirspurn innan frests. Nú er það bara ekki svo. Þessu hefur ekki verið fylgt eftir, hvorki af ráðuneytum né þinginu, sýnist mér, vegna þess að þá sjaldan að ráðherrar skila inn skriflegri beiðni um að fá að skila eftir tímafrest fylgir enginn rökstuðningur. Þetta þarf skrifstofa þingsins að ganga í að laga svo að hér sé fylgt skýrum vilja þingsins frá því fyrir ári.