152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

fullgilding fríverslunarsamnings Íslands, Noregs og Liechtenstein og Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

206. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það yrði væntanlega að ræða við ráðuneytið og ræða í nefndinni hvað má koma fram. Ég held að þetta snúist kannski líka um framtíðarhagsmuni og samningaviðræður, menn séu mögulega eitthvað að huga að þeim. Við hljótum alltaf, eins og í þessu máli, svo það sé alveg ljóst, að gæta sérstaklega að sérhagsmunum okkar og okkar fólk var á fullu í því sem sneri að okkar hagsmunum Íslendinga sem eru gríðarlega miklir í þessu máli. Eins og kemur fram í nefndarálitinu er þetta, ef ég man rétt, næststærsta viðskiptaþjóð Íslendinga á eftir Bandaríkjunum. Þetta hefur auðvitað rokið upp, bæði vöruviðskiptin og síðan þjónusta gagnvart fluginu og ferðaþjónustunni. En bara svo ég fullvissi hv. þingmann: Okkar hagsmuna var gætt af okkar fólki í ráðuneytinu fyrir hönd okkar Íslendinga í þessum viðræðum. En svo er spurning hvort við eigum að taka þetta upp, hvernig við metum þetta varðandi heildarhagsmunina. En svona samningur — ég lít svo á að þegar við erum í svona samningaviðræðum við þjóðir, hverjar sem þær eru, þá er aldrei neinn lokasamningur. Þetta er stöðugt ferli og mun örugglega halda áfram og við munum halda áfram að reyna. En ég held að það sé tiltölulega mikil sátt um þennan samning í landinu og þau markmið sem náðust, í sértækum hlutum sem tengjast hagsmunum okkar kannski frekar en hagsmunum Norðmanna og íbúa Liechtensteins. En það er erfitt að fá svona spurningu þegar maður man ekki alveg hvað maður má segja og hvað ekki þegar um að ræða þagnarskyldu undir 24.gr. í nefndinni, maður lendir í smá vandræðum með þetta, en takk fyrir fyrirspurnina.