152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag kvenna sem helgaður er baráttu kvenna fyrir jafnrétti, jöfnuði og friði svo að eitthvað sé nefnt. Já, konur hafa verið í fararbroddi öldum saman þegar kemur að baráttu fyrir jöfnuði, jafnrétti, velferð og friði. Það eru ekki konur sem leiða þjóðir í stríð. Það eru hins vegar konur sem leiða vinnu við að veita skjól. Mig langar af þessu tilefni að fara á erfiðan stað með okkur, vekja athygli á þeirri hræðilegu staðreynd að það þurfti ekki viku af innrásarstríði Rússa í Úkraínu þar til kvenlíkaminn var orðinn að vígvelli í því hryllilega stríði. Konur og stúlkur eru beittar grófu kynferðisofbeldi og limlestingum, allt í þágu valds, ofbeldis og stríðs og gert til að veikja varnir fullvalda þjóðar. Þetta er því miður órjúfanlegur fylgifiskur stríðsátaka þar sem vopnum er beitt en einnig ráðist með mikilli grimmd gagnvart því allra heilagasta. Svívirðan er algjör. Það virðist allt leyfilegt í þessum grimmilega hernaði brjálaðs manns. Við skulum muna þetta. Við skulum alltaf hafa það í huga, þegar við erum að ræða stríðið í Úkraínu, að einskis er svifist. Við eigum að gera allt til að stöðva þetta stríð, við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur.