152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð félagslegs húsnæðis.

[14:51]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég tek undir með málshefjanda og öðrum hv. þingmönnum varðandi það að vandinn á húsnæðismarkaði er aðkallandi og krefst aðgerða, en ég vil aftur að halda því til haga að um 30% af nýbyggingum á síðasta kjörtímabili voru á vegum hins opinbera til þess einmitt að anna eftirspurn eftir nýju húsnæði. En betur má ef duga skal og það er ljóst að til að bregðast við hreinlega skorti á húsnæði mun þurfa áframhaldandi skýrar aðgerðir stjórnvalda. En það er líka þörf á byggingu húsnæðis umfram það sem hið opinbera getur staðið fyrir. Ef við lítum til Norðurlanda þá sjáum við að það eru töluvert ólíkar áherslur þegar kemur að húsnæðismarkaðnum. Svíþjóð hefur til að mynda sterka kjarasamninga um húsaleigu og Danmörk hefur byggt upp sterkan grunn leigufélaga án hagnaðarsjónarmiða. Á meðan má segja að húsnæðismarkaður á Íslandi og í Noregi byggi að mörgu leyti á þeirri sögulegu staðreynd að flestir kaupa sér húsnæði. Húsnæðiskerfið þarf að bregðast við breyttum aðstæðum og vernda þann hóp sem er líklegur til að finna fyrir afleiðingum íþyngjandi húsnæðiskostnaðar, bæði á eigna- og leigumarkaði. Vissulega búa um 75% á íslenskum húsnæðismarkaði í eigin húsnæði en við þurfum að gæta sérstaklega að þeim hópi sem er á leigumarkaði og byggja undir fjölbreyttari úrræði á húsnæðismarkaði. Við þurfum að miða við að fólk greiði ekki meira en 25% af tekjum sínum í húsnæðiskostnað og hafi raunverulegt val milli leigu, eignar eða búseturéttar. Ég styð heils hugar að við skoðum frekari uppbyggingu á óhagnaðardrifnum búsetuúrræðum því að það er líklegt til að hafa áhrif á leigu á almennum markaði. Þetta er auðvitað í grunninn skipulagsmál. Það þarf að móta sýn til framtíðar og vonandi kemur hæstv. innviðaráðherra í lokaorðum sínum betur inn á áætlanir ráðuneytis hans.