152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, skýrsla, kortlagning, fræðsla. Skiptir það máli? Já, ég held það af því að ég held að við verðum að horfast í augu við það að við erum ekki að sinna þessari kortlagningu og þessari fræðslu með nægilega góðum hætti núna. Við erum ekki að gera það. Ég nefndi barnaþing áðan af því að ég tek mark á því sem kemur þar fram og þegar ég heyri það sagt að börnin upplifi að fólkið sem þau eru að vinna með hafi í raun og veru ekki fengið nægjanlega fræðslu um þessi málefni þá held ég að það sé bara mjög góður og mikilvægur vegvísir fyrir okkur. Þannig að það skiptir algjörlega máli. Sömuleiðis verðum við líka að horfast í augu við það — nú erum við með jafnréttissjóð sem hefur verið að styðja við rannsóknir á sviði jafnréttismála, það var ákveðið að setja hana á laggirnar í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna 2015 — og hvað kemur á daginn? Það var ótrúlega mikil þörf fyrir slíkar rannsóknir. Ég held að það sama muni koma út úr þessu því að það er skortur á þekkingu á málaflokknum. Auðvitað vitum við sumt, höfum tilfinningu fyrir öðru, en það er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld vinni þetta með mjög vönduðum hætti. Ég held að þetta sé mikilvægt. (Forseti hringir.) Ég skil hins vegar alveg óþreyjuna eftir frekari breytingum, og hv. þingmaður nefndi t.d. í fyrra andsvari biðlista eftir trans teyminu, en við þurfum líka að sinna þessum þætti málsins.