152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Við erum í ákveðnum vanda vegna þess að annars vegar óttumst við mjög að stjórnmálasamtök hafi uppi margvíslegan áróður við kjósendur og höfum því sett alls konar reglur og auðvitað þurfum við að hafa áhyggjur af falsfréttum og þurfum að hafa áhyggjur af ólöglegum kosningaáróðri þar sem beinlínis er farið fram með helber ósannindi. Ég er alveg hlynnt því að við höfum einhvern ramma utan um það. Ég man eftir því að við höfðum mjög miklar áhyggjur af því að t.d. í mörgum framhaldsskólum mega stjórnmálasamtök ekki koma inn til þess að ræða við kjósendur 18, 19, 20 ára eftir að Sjálfstæðisflokknum tókst að valda framhaldsskólanum skaða. En á sama tíma viljum við ekki að framkvæmdaraðilinn, sem eru sveitarfélögin, annist það að hafa beint samband við kjósendur. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt. Auðvitað er það framkvæmdaraðilinn sem á sérstaklega að vekja athygli á því að það séu að koma kosningar, það eru ákveðnir flokkar í boði, vinsamlegast kynnið ykkur það og þess háttar. Ég verð að segja að ég hef engar stórkostlegar áhyggjur af því að stjórnmálaflokkar veki athygli á sínum stefnumálum af því að það er svo ofboðslegt magn af alls konar upplýsingum sem dembist yfir mann sem maður hefur engan áhuga á, bara á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Ég hef engar áhyggjur þannig séð af því að stjórnmálaflokkar miðli upplýsingum um sig eða sína stefnu.