152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Já, ég get svo sannarlega tekið undir hvað varðar þær áhyggjur sem hv. þingmaður lýsti yfir og þetta var sérstaklega erfitt fyrir mig af því að þetta hafði áhrif á mig persónulega. En fyrir mér skiptir lýðræðið máli og þess vegna greiddi ég atkvæði miðað við mína sannfæringu þegar kom að því að ákveða hvernig þetta ætti að enda. Mér fannst reyndar dálítið fyndið eða kómískt að þessi ákveðnu orð Stalíns voru sögð við mig á kjördag af aðila í kjörstjórn. Það var reyndar ekki í Norðvesturkjördæmi. Það er nefnilega þannig að eitt af því sem ég lærði af honum afa mínum, sem sat hér í 30 ár, er það að völd spilla. Það er nákvæmlega þetta með völdin, þegar þú ert búinn að vera með þau mjög lengi þá viltu oft að þú náir þínu fram, óháð því hvað er rétt eða hvað er rangt. Það er því miður þannig með mörg lönd sem standa mun verr en við hvað það varðar.