152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

hugsanleg aðild að ESB.

[16:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Evrópusambandsríkin og ríkin innan EES eru sannarlega vina- og bandalagsþjóðir okkar. Það endurspeglast m.a. og fyrst og fremst í EES-samningnum sem ég er mjög ánægð með og við erum ánægð með og er mikill stuðningur við í íslensku samfélagi, sem betur fer. Það er að mínu viti kannski óþarfi að vera að bera saman öryggishagsmunina sem felast í ESB-aðild og því sem við síðan höfum. Ísland er aðili að NATO en innan Atlantshafsbandalagsins eru til að mynda Bandaríkin og Bretland með 80% af hernaðarstyrknum og Evrópusambandsríkin öll til samans með 20%, þannig að það er í mínum huga ekki mikil viðbót út frá öryggis- og varnarmálum fyrir okkur að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Það er í mínum huga líka hálfgerður óþarfi fyrir okkur að velta vöngum yfir þessu núna eða vera að taka þátt í einhvers konar innbyrðismetingi um Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Staðreyndin er að það er sótt að gildum sem við eigum sameiginleg á svo mörgum vettvangi. Auðvitað er öllum frjálst að hefja máls á hverju sem þeir kjósa eins og Evrópusambandsflokkarnir hafa nú gert og það er ekkert að því að segja það ef einhverjir telja tækifæri til að tala sérstaklega fyrir ESB-aðild í tengslum við það sem er að gerast. En ég er ekki sjá það sem sérstaklega rökrétt skref um þessar mundir og ekkert af því sem hefur gerst nú breytir þeirri skoðun minni að Ísland sé ákaflega vel sett í sínu alþjóðlega samstarfi á EES-svæðinu með aðild að Atlantshafsbandalaginu og þar að auki með varnarsamning við Bandaríkin. (Forseti hringir.) Þannig að ég tel það ekki til bóta að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sérstaklega þegar það er enginn pólitískur stuðningur við það innan ríkisstjórnarinnar.