152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ódýr pólitík og hræðsluáróður, ekki „relevant“ umræða, ekki á dagskrá. Þetta er hluti af orðræðu síðustu daga þegar sjálfsögð og tímabær umræða hefst um þátttöku Íslands í Evrópusamvinnunni í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu. Þetta hljómar allt kunnuglega. Málið er ekki á dagskrá — rétt eins og einstaka ráðherrar eða stjórnarþingmenn séu fundarstjórar íslenska lýðveldisins, eins og þeim hafi verið falið það vald að skammta þjóðinni umræðuefni og upplýsingar til að taka upplýsta ákvörðun. En það vald liggur ekki hjá stjórnarmeirihlutanum. Þjóðin hefur sett öryggis- og varnarmál Evrópu á oddinn og á dagskrá. Úkraína hefur sett þetta mál á dagskrá, önnur nágrannaríki Rússa hafa líka gert það, Danir gerðu það hressilega, líka Finnar og Svíar, og það hefur Evrópusambandið líka gert sem stofnun.

Við eigum að ræða stór mál efnislega. Það er okkar að dýpka umræðuna, fleyta henni áfram, þroska mál og takast á með rökum. Við þurfum ekkert að vera sammála, við getum jafnvel rifist, en að neita að ræða mál, segja þau ekki á dagskrá, er ódýrt mælskubragð og hrein uppgjöf gagnvart krefjandi verkefnum.

En af hverju vilja menn taka dagskrárvaldið af þjóðinni? Ástæðuna er að finna í alþingiskosningunum 2013. Sex þingmenn sem síðar urðu ráðherrar lofuðu þá skýrt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við ESB. Sex þingmenn, sem urðu ráðherrar eftir kosningarnar, sviku það. Í stað þess að þjóðin kysi var sent laumubréf til Brussel, án umræðu í þinginu, og hugtakið pólitískur ómöguleiki fæddist án sýnilegrar meðgöngu. Pólitískur ómöguleiki er loðið orðalag yfir svikin kosningaloforð. Og loforðin voru skýr, með leyfi forseta:

„Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það að þjóðin fær að ákveða það hvort það verði gengið lengra í þessu máli. Það er þjóðarinnar en ekki einstakra stjórnmálamanna“

Ástæðan fyrir því að ekki má ræða þetta mál er ofur einfaldlega sú að ákveðnir stjórnmálamenn (Forseti hringir.) eru hræddir um að þurfa að lofa einhverju sem þeir ætla ekki að standa við. (Forseti hringir.) Þessu er best svarað með orðum Sjálfstæðisflokksins: Það er þjóðarinnar en ekki einstakra stjórnmálamanna að ráða.