152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt sem hún segir, þessi tillaga liggur fyrir. Við lögðum þessa tillögu fram saman ásamt Guðmundi Andra Thorssyni. Við unnum hana vel, vil ég leyfa mér að segja, þannig að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að láta reyna á vilja þingsins í þessu máli. Aftur ætla ég að leyfa mér að lýsa því yfir að ég deili ekki bjartsýni þingmannsins á niðurstöðuna en mér finnst sjálfsagt og gott að menn fái að greiða atkvæði og sýna vilja sinn þannig í verki ef til þess kæmi. Stóra málið í mínum huga var engu að síður að minna einfaldlega á það að það er í mánuðum talið síðan við lögðum fram þessa tillögu og hún fékk meðferð í þinginu og það var sterk orðræða, fannst mér, af hálfu meiri hlutans um að það hefði ekki verið tími til. En við stóðum í heildarendurskoðun á þessari löggjöf. Það er hægt að fara þessa leið einmitt í gegnum kosningalögin. Það þarf ekki að eiga við stjórnarskrána í þessum efnum þannig að það var tími, rúm og aðstæður fyrir hendi. Vinnan lá fyrir. Breytingartillagan lá fyrir. Afstaða meiri hlutans og ríkisstjórnarflokkanna þriggja varð því miður jafnframt um leið ljós og enn sitjum við uppi með sömu ríkisstjórn.