152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[19:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það hafi akkúrat verið lykilorðið sem hæstv. ráðherra kom með, þetta með forvarnirnar. Það er þar sem við erum að reyna að grípa inn í til að missa færri út af. Þess vegna erum við að skima, til að reyna að grípa sem fyrst inn í frumstig krabbameins, og við ættum að geta gert þetta á mun víðtækari hátt.

Ég var að fá svar í dag frá hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni um eftirlit landlæknis með heilbrigðisþjónustu. Þar kemur fram að embættið á að hafa eftirlit með rúmlega 25.000 heilbrigðisstarfsmönnum, þar af 19.000 sem eru undir 70 ára aldri og skráðir með búsetu á Íslandi, og með rúmlega 3.300 einingum sem eru Landspítalinn, heilsugæsla og yfir í alla sjálfstæða heilbrigðisstarfsmenn. Það eru tvö stöðugildi sem sinna eftirliti með þessari heilbrigðisþjónustu, tvö stöðugildi. (Forseti hringir.) Þannig að ég velti fyrir mér hvort það gæti verið að við ættum við að bæta í þar (Forseti hringir.) til að við séum að veita fullnægjandi þjónustu.