152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:32]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil bara byrja á því að þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir. Mér finnst áhugavert það sem hún var að ræða um jaðarhópa og eldri fíkla. Þetta er kannski málefni sem ekki er oft rætt og mætti taka miklu meira pláss vegna þess að þetta er kannski líka oft sá hópur sem upplifir mjög mikla skömm. Fólk sem er eldri borgarar í dag ólst upp í allt öðruvísi samfélagi en ég ólst upp í og það gefur að skilja að viðhorfin voru önnur og skömmin er e.t.v. meiri þar sem þau ólust upp í öðrum aðstæðum þar sem ekki var endilega talað um erfiðleika eins og fíkn á opinn hátt eins og er gert í dag. Fordómar hafa minnkað en þeir eru enn til staðar og voru væntanlega mun verri í þá daga þannig að mér finnst þetta bara mjög áhugavert og ég tel að við þurfum að huga betur að þessum hóp og ræða þetta við eldra fólk og eldri fíkla og vera kannski í sambandi við þetta fólk. Er einhver slíkur hópur til eða hafa einhvern tímann verið stofnuð einhvers konar samtök eldri fíkla? Veit hv. þingmaður til þess?