152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hittir naglann á höfuðið þarna, uppruni tekna virðist skipta máli, hvaðan þessar tekjur koma. Þú getur unnið fyrir einhverjum tekjum og það skerðir ekki en að taka út það sem hefur oft verið kallað frestaðar tekjur, þetta eru geymdar tekjur — það er notað til að skerða. Mig langar að hugsa um gömlu ömmuna sem er kannski orðin 80 ára gömul og hún er búin að vaxa í allar áttir, hún á fullt af börnum og fullt af barnabörnum og hana langar til að gefa börnunum og barnabörnunum sínum jólagjafir. Það eru bara talsverð útgjöld í því fyrir eldra fólk að gefa barnabörnunum sínum jólagjafir. En þarna er búið að taka fyrir þessa möguleika. Sér þingmaðurinn fyrir sér að við getum breytt því að uppruni tekna skipti máli?