152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[23:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er ein spurning líka sem maður væri til í að yrði alltaf fyrsta spurningin þegar eldri manneskja fer inn í einhvers konar þjónustu, hvort sem er á hjúkrunarheimili eða í heimaþjónustu, og við blasir einhvers konar vanlíðan og að eitthvað er að hrella viðkomandi, þá komi þessi sálræna þjónusta, geðþjónusta, inn af alvöru, hvort sem það eru sálfræðingar eða aðrir sem geta veitt viðtalsmeðferð, og mögulega spyrji ekki bara spurningarinnar: Hvað er að þér, hvað er að hrjá þig heldur hvað kom fyrir? Hvað veldur því að þér líður svona núna? Hvað gerðist á leiðinni? Kom eitthvað fyrir þig, misstir þú einhvern nákominn, varðst þú fyrir ofbeldi? Og talandi um ofbeldi, þá hafa líka komið skuggalegar fréttir af ofbeldi gagnvart fólki sem er vistað á lokuðum öldrunardeildum. Og af því við töluðum um eftirlit með heilbrigðisþjónustu fyrr í dag og ég fékk þau svör frá hæstv. ráðherra að það væru tvö stöðugildi hjá embætti landlæknis sem eiga að fylgjast með allri heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þá held ég að þarna sé klárlega ákveðin hætta. Að það séu sérstaklega hópar sem eru í viðkvæmri stöðu sem þarf að fylgjast með, sérstaklega á þessum lokuðu deildum.