152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Það sem mig langar að ræða hér í dag er staða Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og þær reglur sem gilda um fjármögnun sjóðsins af hálfu ríkisins. Jöfnunarsjóðurinn er sveitarfélögunum í landinu mjög mikilvægur en ljóst er að greiðslur úr jöfnunarsjóði eru stór hluti tekna margra sveitarfélaga, sér í lagi þeirra sem minni eru. Mörg, ekki öll, minni sveitarfélög landsins eru algerlega háð greiðslum úr sjóðnum og allar sveiflur í greiðslum úr sjóðnum til sveitarfélaga geta gert þeim nánast ómögulegt að sinna þeim lögbundnu verkefnum sem þeim hefur verið falið lögum samkvæmt af hálfu ríkisins með samningum þar um.

Þau sveitarfélög sem stærri eru hafa einnig ríka hagsmuni af stöðugum greiðslum jöfnunarsjóðs og sveiflur í greiðslum til þeirra hafa valdið þeim erfiðleikum í rekstri. Greiðslur til sveitarfélaga úr jöfnunarsjóði fylgja skatttekjum ríkisins. Eftir því sem betur gengur hjá ríkinu og tekjurnar hækka aukast þeir fjármunir sem renna inn í sjóðinn og koma til úthlutunar til sveitarfélaga. Þegar verr gengur, t.d. í þeim áföllum sem við höfum upplifað á undanförnum árum, hvort sem það var í hruninu og í kjölfar þess eða í Covid og eftirmálum þess þegar tekjur ríkisins dragast saman, dregur úr þeim fjármunum sem renna til jöfnunarsjóðs og þar með til sveitarfélaganna. Vandamálið er hins vegar að það kostar sveitarfélögin jafn mikið að reka t.d. skóla, leikskóla og málefni fatlaðra, hvort sem vel gengur hjá ríkinu eða ekki.

Ég hvet til þess að þetta verði endurskoðað samhliða endurskoðun á regluverki jöfnunarsjóðs þannig að betri stöðugleiki verði í úthlutun sjóðsins og fyrirsjáanleiki sveitarfélaga verði meiri við gerð fjárhagsáætlana á hverjum tíma fyrir sig þannig að sveitarfélögin viti fyrr og betur hvert það fjármagn verður (Forseti hringir.) sem sveitarfélögin fá á hverju ári frá ríkinu í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.