152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[19:00]
Horfa

(Þorgrímur Sigmundsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þakka þér fyrir. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að stíga hér upp með sérstöku leyfi hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég er nákvæmlega búinn að merkja við það sama og allir þeir sem eru búnir að tjá sig. Allir sem komu á undan mér eru efnislega að tala um það sama. Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra gengur gott eitt til. Markmiðið er göfugt en leiðin er galin. Að ætla að banna mér, sem notaði lakkríspúða til að hætta að reykja eftir að hafa prófað íslenskt neftóbak, að kaupa það til að vernda börn er langsótt, svo að vægt sé til orða tekið. En ég skil mjög vel hugmyndina, löngunina og þrána eftir betri lýðheilsu og eftir betri stöðu og betri heilsu barna. Þetta er bara ekki leiðin. Ég segi eins og einhver af þeim þingmönnum sem hér töluðu á undan mér, Hildur Sverrisdóttir ef ég man rétt: Er Baileys næst? Ef markmiðið er að fara bragðleiðina til að bæta lýðheilsu þjóðarinnar hvar tekur það enda, hæstv. heilbrigðisráðherra?