152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og er hjartanlega sammála honum um að það eigi frekar að fara í fræðslu og forvarnir en að loka á hluti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður hafði greinilega lesið vel greinargerðina með þessu frumvarpi. Hann benti til að mynda á að það þyrfti sex mánaða fyrirvara á því að sækja um leyfi. Þetta fór að minna mig á umsóknarferli um ríkisborgararétt og hversu langan tíma það tekur. En nú hefur það verið mikið í umræðunni undanfarna mánuði að neytendur hafa uppgötvað að hægt er að kaupa áfengi frá útlöndum og í gegnum vefverslanir og kaupa þar áfengi sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er ekki með t.d. og það virðist vera að ekki sé hægt að loka á þetta vegna þess að þarna er verið að selja áfengi í gegnum Evrópu, lönd í Evrópusambandinu, sem við höfum gert samninga við, og ég veit að hv. þingmaður er mikill stuðningsmaður Evrópusambandsins og aukinnar samvinnu við það. Tók hv. þingmaður eftir því hvort það væri eitthvað í þessum lögum eða þessu frumvarpi sem bannar einstaklingum að panta sér ávaxtapúða frá vefverslunum í útlöndum, í Evrópusambandinu?