152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[21:23]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað skal segja við þessari spurningu um hvort sé betra eða verra. Ég get eiginlega ekki lagt mat á það. En mér finnst þetta hins vegar áhugaverður punktur, 18 ára skilyrðið hjá okkur er auðvitað dálítið sérstakt. Einu sinni voru þetta 16 ár, við munum eftir því sum. Við skilgreinum skilin milli barns og fullorðins á 18 ára afmælisdaginn. Daginn fyrir 18 ára afmælisdaginn fer viðkomandi að sofa sem barn og hann vaknar sem fullorðinn. Það er ótrúlegt líka að það má ekki kaupa áfengi 20 ára en það má gifta sig 18 ára. Við getum tekið sérstaka umræðu um það. En þetta eru lögin í dag, 18 ára, og ég horfi bara á aðgengi. Ef þetta frumvarp verður að lögum og getur mögulega dregið úr aðgengi barna og unglinga að þessum vörum þá er ég bara sátt (Forseti hringir.) þó að ég sé öll fyrir bragðið. Ef ég væri að nota þessa vöru og væri miður mín (Forseti hringir.) vegna þess að ég fengi ekki bragðið þá væri ég tilbúin til að fórna bragðinu.