152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[21:27]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu punkta, þetta er algerlega sjónarmið. Ég vil taka það fram að Flokkur fólksins er ekki flokkur sem er hrifinn af forræðishyggju eða vill setja á boð og bönn. Með minn bakgrunn — ég er búin að vinna með börnum og unglingum, var lengi yfirsálfræðingur á Stuðlum og hef verið í þessum geira að standa vörð um hagsmuni barna í yfir 30 ár. Ég viðurkenni það og legg það hér á borð að ég tala út frá minni sannfæringu og reynslu af að vinna með börnum og unglingum. Auðvitað getum við ekki tekið allt burt, þá myndum við bara loka börn inni ef við ætlum að ganga í einhverjar slíka áttir. Ég vil bara horfa á að hér liggur fyrir frumvarp um að takmarka þessar vörur með því að banna að vissu leyti innflutning og ég treysti því að búið sé að rannsaka vel hvað liggur þarna að baki. Það eru önnur lönd búin að gera þetta sama.

Þegar ég er búin að hlusta á alla þessa umræðu finnst mér að margir hafi svolítið verið að tala út frá sjálfum sér. Ekki það að ég veit að þeir elska börn og vilja gera allt fyrir börn. Samt hefur umræðan verið mjög mikið fullorðinsmiðuð, eins og ég upplifi hana. Ég er að bregðast við því og ég hugsa: Ég er tilbúin til þess að fórna valfrelsi að þessu leytinu til ef, eins og sýnt er í þessu frumvarpi, það verður til þess að takmarka aðgengi barna og unglinga að þessum vörum. Svo vitum við kannski ekki svo mikið meira hvernig þetta á eftir að þróast. Ég held samt sem áður að við verðum að gefa þessu séns og sjá hvað gerist, eins og með svo margt annað sem við höfum gert, eins og bjórinn í þá átt sem hér var nefnt og (Forseti hringir.) hvernig við bönnuðum reykingar á börum og hvernig hlutirnir gengu bara upp. (Forseti hringir.)