152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[21:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Þetta er svona klassískt hvað varðar þingstörfin, ríkisstjórnin mokar inn málum og svo eiga þau bara að renna í gegn án umræðu nema stjórnarandstaðan taki þátt í þingstörfunum og taki til máls hér í ræðustól Alþingis. Stjórnarliðar gera það ekki því að alla jafna ef þau sitja bara á höndum sér þá renna málin í gegn; það er tékkað í boxið í nefndum, málið fer í gegnum nefnd og inn á þing og allt og engin lýðræðisleg umræða. Ég hefði haldið, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á, að í þeim málum sem verið var að nefna hérna hefðum við viljað fá lýðræðislega umræðu við stjórnarliða. Það þarf í þessu máli sem er búið að vera ágætlega umtalað í fjölmiðlum meðal grasrótar sumra stjórnarflokkanna. Þetta er svona klassísk þingleikfimi hvað það varðar. Það eina sem við getum gert er að mæta hingað og segja: Þetta er ekki nógu gott mál. En stjórnarliðar láta ekki sjá sig.