152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Á slóðinni helpukraine.is gefur að líta síðu svokallaðrar móttökumiðstöðvar fyrir úkraínskt flóttafólk á Íslandi. Síðan er á ensku þannig að ég mun gera mitt besta til að þýða hér á eigin ábyrgð uppi í pontu. Þessi miðstöð veitir flóttafólki frá Úkraínu leiðbeiningar og lofar því að fylgja þeim hvert einasta skref frá þeim stað þar sem þau eru stödd og til Íslands, leiðbeina þeim um það hvernig hægt er að sækja um dvalarleyfi, leiðbeina þeim um atvinnuleyfi og hvernig eigi að fá slíkt leyfi, aðstoða þau við að finna húsaskjól, aðstoða þau við að afla annarra nauðsynja. Við fyrstu sýn þegar maður sér síðu sem þessa mætti ætla að hún væri á vegum stjórnvalda, slíkar eru upplýsingarnar, slík er fagmennskan sem býr þarna að baki. Sjálf er ég búin að fara í heimsókn á þennan stað og þangað kemur fjöldi fólks á degi hverjum og fær mjög faglegan stuðning gríðarlega áhugasamra sjálfboðaliða sem leggja allan sinn frítíma og jafnvel meira til til að aðstoða fólkið. Á heimasíðunni getur fólk skráð sig, það getur skráð nafn og haft er samband við það. Hægt er að skrá ef maður vill leggja sitt af mörkum. Það er hægt að auglýsa þarna húsnæði sem stendur til boða, fatnað og aðrar nauðsynjar. En eru það stjórnvöld sem standa fyrir þessari síðu? Nei, þetta eru sjálfsprottin hjálparsamtök. Þetta eru sjálfsprottin sjálfboðaliðasamtök sem spretta upp vegna þess að íslensk stjórnvöld sinna ekki þessu hlutverki. Á sama tíma kemur í fjölmiðlum að ekki hafi verið útveguð þvottaaðstaða, (Forseti hringir.) aðstaða fyrir fólk sem á jafnvel aðeins þau föt sem það er í þann daginn, er með börn meðferðis og það er ekki þvottavél á staðnum. (Forseti hringir.) Ég vil bara beina því til hæstv. ríkisstjórnar að fara í heimsókn til þessarar miðstöðvar og sjá hvað er þar í gangi og tryggja að þessir sjálfboðaliðar (Forseti hringir.) brenni ekki út við að sinna hlutverkum íslenskra stjórnvalda.