152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:40]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það er nefnilega þannig að það virðist vera að allir aðrir eigi að vera skilvirkir en ekki endilega ráðuneytin sjálf. En mig langaði aðeins að tala um þetta módel sem við erum með hjá framkvæmdarvaldinu, þessi ráðuneyti, og undir því erum við með skrifstofur sem fá hin ýmsu verkefni. Við erum að færa fullt af verkefnum núna fram og til baka, eins og sést. Mér hefur stundum fundist að það séu of miklir veggir þegar kemur að ákveðnum verkefnum. Sum verkefni, ef við tökum bara hælisleitendur sem dæmi, eru fyrst í dómsmálaráðuneytinu og svo, eftir því hvar fólkið er í ferlinu, þá detta þeir yfir í félagsmálaráðuneytið. Það er oft erfitt að fá tvo ráðherra eða tvö ráðuneyti til að vinna saman þannig að þetta verði ferli sem t.d. hælisleitendur geti gengið í gegnum á mjög auðveldan hátt. Á sama tíma getum við horft á önnur atriði eins og t.d. nýsköpun; nýsköpun á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar sem og nýsköpun á sviði tækni og á sviði vísinda. Nýsköpun er eitthvað sem við erum að reyna að keyra í gegnum öll ráðuneytin, en þau enda öll í svona litlum boxum sem hvert um sig er bara að fókusera á eitthvað eitt. Þau eru ekkert að læra hvert af öðru, það er ekkert verið að vinna saman að verkefnum. Við stöndum frammi fyrir stafrænni umbyltingu og það er eitthvað sem er að fara að gerast alls staðar í stjórnkerfinu; en aftur eru þau bara föst í sínum boxum. Þurfum við ekki að fara að hugsa út fyrir boxið, hv. þingmaður?