152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:43]
Horfa

Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður þarf ekkert að segja mér það að stjórnkerfið sé umfangsmikið, svifaseint og þunglamalegt. Það er það og það sem hann lýsir eru í raun sóknartækifærin sem við stöndum frammi fyrir til að gera það einfaldara og skilvirkara. Það snýr ekki bara að kröfunni um að draga úr kostnaði, þó svo að það sé, að ég tel, jákvæð hliðarverkun af því að fara í þessar breytingar, heldur er lykilávinningur okkar sem samfélags sá að þjónustan verður aðgengilegri og betri fyrir þá sem þurfa á henni að halda.

Við sem samfélag berum gífurlega ábyrgð á því að hér sé t.d., eins og hv. þingmaður nefnir, móttaka flóttafólks, svo að fólk sem kemur hingað til landsins í leit að alþjóðlegri vernd, vegna þess að það verður fyrir ofsóknum eða á á hættu að lenda í ofbeldi eða stríði heima hjá sér, lendi ekki á veggjum í kerfinu og sömu veggjum og við lendum á þegar við erum að reyna að stofna fyrirtæki eða sækja um skóla fyrir börnin okkar. Þetta er fólk sem er á sínum veikasta stað í lífinu, veikasta stað í heiminum. Þetta er það fólk sem þarf einna helst að taka þétt utan um. Í því samhengi vil ég nefna hér og gagnrýna ákvörðun hæstv. dómsmálaráðherra um að færa lögfræðiþjónustu fyrir þennan hóp fólks frá Rauða krossinum, sem gerir það að verkum að það er engin miðlægur punktur þangað sem fólk á flótta getur leitað til að sækja þessa nauðsynlegu þjónustu. Þarna er verið að leggja nýja hindrun í veg þessa viðkvæma hóps, sem er bara gífurlega mikið áhyggjuefni.