152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[19:21]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, vissulega. Ég er sammála hv. þingmanni um að það ætti að vera hægt að sjá þetta fyrir. Hið opinbera er svolítið eins og olíuskip. En þetta snerist kannski ekki eins mikið um þjónustuna og hið opinbera segir, heldur frekar um stólana.

Mig langaði að breyta aðeins um efni en samt vera á sömu vegum og hv. þingmaður var í ræðu sinni. Nú sjáum við alls konar greiningar á hagkerfinu í útlöndum út af þessu ástandi í Evrópu. Við sjáum greiningar sem sýna að höggið — þetta kom frá Efnahags- og framfarastofnuninni til að mynda — á verðbólgu í Evrópu gæti verið plús 2%, höggið á magn hveitis í heiminum gæti verið neikvætt um 10%. Þetta gæti minnkað hagvöxt í Evrópu og í Bandaríkjunum um 1–1,5%. Hvar eru opinberar spár um slíkt hér á Íslandi? Á hverju er verið að byggja ákvarðanatöku í dag í efnahagsmálum hjá hinu opinbera? Það sjáum við hvergi í þinginu. Við erum auðvitað að bíða eftir Hagstofuspánni sem kemur núna með fjármálaáætlun. En ég velti því fyrir mér, í ljósi þess að hv. þingmaður var að tala um gagnsæi og læsi á fjárlögum, af því að núna er þekking fólks sem situr í þinginu misjöfn, sem kemur inn í fjárlög, til að mynda hvort það væri ekki til bóta, þegar svona ástand kemur upp, þar sem verða svona gjörbreytingar á efnahagsaðstæðum og hlutum sem hafa veruleg áhrif á undirliggjandi stærðir, að við sæjum skýrslu hér í þinginu sem kæmi frá fjármálaráðuneytinu sem færi yfir hverjar breytingarnar væru í þessu samhengi. Þetta væri ekki endilega alltaf bara háð fjármálaáætlun, vegna þess að við getum ekki alltaf verið að bíða eftir fjármálaáætlun hverju sinni til þess að fá svona yfirferð. Þetta hefur augljóslega mikil áhrif á umræðuna og ég held, bara upp á þekkingarstig hér í umræðunni, að þetta myndi bæta ýmislegt.