152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

lengd þingfundar.

[12:16]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég segi: Já, við lengdum þingfundi. Eins og hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson sagði hér áðan þá skiptir miklu máli að hlusta, það skiptir miklu máli að hlusta á þá umræðu sem fer fram hér við 1. umr., en það skiptir ekki síður máli að fá tækifæri til að hlusta á umsagnaraðila í nefndunum eftir 1. umr. Því þurfa mál að komast til nefndar þannig að við 2. umr. sé hægt að taka samtal um hvaða mál eiga erindi hér til fullnaðarafgreiðslu og hver þurfi hugsanlega frekari vinnslu við áður en þau verða lögð aftur fyrir þingið síðar. Þetta er það sem ég legg áherslu á hér; að nefndirnar fái tækifæri til þess að vinna með málið.

Svo er auðvitað tilefni til að leiðrétta ýmsar rangfærslur hér. Hér fyrr í vikunni hafa stjórnarþingmenn ítrekað komið ýmist í andsvör eða stuttar ræður og komið á framfæri sjónarmiðum við mál. Og munum eftir því að þingsalurinn nær inn í hliðarsalina (Forseti hringir.) þar sem stjórnarþingmenn hafa oft verið viðstaddir.