152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

lengd þingfundar.

[12:22]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Af því að samtalið er að þróast í þá átt hvort fólk nenni að vera hér til miðnættis í kvöld þá ætla ég að upplýsa að sjónvarpsdagskráin er þannig í kvöld að ég kvarta ekki undan því að vera hér og mun taka þátt í allri umræðu. En af því að það er verið að ræða um virðingu þingsins þá er það nú þannig að þungamiðjan í starfi löggjafans er samtalið. Það er samtalið, það er rökræðan, það er hlutverk stjórnarandstöðunnar að sýna aðhald, að vera virk í sínu eftirliti, að spyrja spurninga. Það styttir ekki endilega samtalið að stjórnarþingmenn taki ekki þátt í þessu samtali. Það gerir það nefnilega ekki. Ég biðla til stjórnarþingmanna að vera hér með okkur í stjórnarandstöðunni í kvöld og sinna þingstörfum. Það er taktur þingsins.