152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:04]
Horfa

Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Það er gott að verið sé að huga að neytendavernd. Ég er enn á þeirri skoðun að því lægri sem hámarksbinditíminn sé, þeim mun betra sé það fyrir neytandann, enda er ákveðinn aðstöðumunur á milli neytanda og fyrirtækis sem gerir samninginn við hann. Neytendur þurfa þessa vernd í samningsgerð sinni við stærri og öflugri aðila.

Mig langar líka til að vekja athygli á hinum liðnum í athugasemd Neytendasamtakanna sem varðaði 69. gr. frumvarpsins um upplýsingagjöf. Þar lögðu Neytendasamtökin til að fjarskiptafyrirtækjum yrði gert að koma skriflegum skilaboðum áleiðis til neytanda í kjölfar samnings sem er gerður í gegnum síma. Mig langaði bara til að kanna hvort brugðist hefði verið við þeirri athugasemd og hver afstaða ráðherra sé til þess vinkils í upplýsingagjöf til neytenda.